February 9, 2014 | Posted in:Uncategorized

Menntamálaráðuneytið hefur skipað nýjan IMMI stýrihóp sem mun halda áfram vinnunni við að skrifa og grein lög byggð á þingsályktuninni. Í stýrihópnum sitja nú:

 • Ása Ólafsdóttir, formaður, skipuð af menntamálaráðherra án tilnefningar,
 • Aðalheiður Ámundadóttir, tilnefnd af IMMI alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningafrelsi,
 • Aðalheiður Þorsteinsdóttir, tilnefnd af utanríkisráðuneyti.
 • Elfa Ýr Gylfadóttir, tilnefnd af fjölmiðlanefnd.
 • Gísli Valdórsson, tilnefndur af innanríkisráðuneyti.
 • Páll Þórhallsson, tilnefndur af forsætisráðuneytinu,
 • Sirrý Hallgrímsdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti.
 • Starfsmaður stýrihópsins er Margrét Magnúsdóttir lögfræðingur. [ATH. contact info]

ÞAU ATRIÐI SEM STÝRIHÓPNUM ER ÆTLAÐ AÐ TAKA TIL SÉRSTAKRAR ATHUGUNAR ERU:

 1. Vernd heimildarmanna; þ.e. hvort rétt sé að styrkja vernd heimildarmannafrekar en nú er í gildandi rétti.
 2. Vernd afhjúpenda; þ.e. hvort rétt sé að styrkja vernd afhjúpenda frekar en nú er í gildandi rétti og hvort til greina komi að breyta ákvæðum um þagnarskyldu í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sbr. lög nr. 45/1998 og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1040.
 3. Samskiptavernd og vernd milliliða; hvort rétt sé að styrkja vernd samskipta, með því að takmarka eða afnema rétt til vistunar samskipta þeirra hjá þriðja aðila, svo sem fjarskiptafyrirtækjum. Hvort endurskoða skuli fjarskiptalög, nr. 81/2003, þá sérstaklega 3. mgr. 42. gr. laganna sem kveður á um varðveislu fjarskiptagagna í sex mánuði í þágu rannsóknar sakamála eða almannaöryggis.
 4. Hvort rétt sé að afnema eða takmarka heimildir til lögbanns vegna væntanlegrar birtingar efnis í fjölmiðlum. Jafnframt hvort styrkja megi rétt þeirra sem slík birting beinist að með öðrum hætti.
 5. Málskostnaður í málum sem varða tjáningarfrelsi og jafnframt hvort rétt sé að setja reglur um opinbera réttaraðstoð vegna málskostnaðar, sem hlýst af höfðun dómsmála sem varða tjáningarfrelsi eða hvort rétt sé að breyta réttarfarsreglum um þetta efni sérstaklega.
 6. Takmörkun á fullnustu erlendra dómsúrlausna í meiðyrðamálum og hvort rétt sé að breyta réttarfarsreglum hér á landi í því skyni að takmarka fullnustu slíkra dómsúrlausna hér á landi. Hér þarf að líta til skuldbindinga Íslands vegna EES samningsins og Lúganó samningsins.
 7. Vernd gagnagrunna og safna, og hvort rétt sé að skilgreina hugtakið ,,útgáfudag“ nánar þegar um er að ræða efni, sem gert er almenningi aðgengilegt í rafrænu gagnasafni, vegna tímafresta til höfðunar meiðyrðamála. Jafnframt hvort rétt sé að setja hámark fyrir greiðslu skaðabóta í slíkum málum.
 8. Upplýsingaréttur og hvort rétt sé að mæla fyrir um frekari rétt almennings til aðgengis að upplýsingum og skjölum, sem stafa frá opinberum aðilum.
 9. Rafræn staðfesta; þ.e. hvort rétt sé að tekin verði upp rafræn staðfesta félaga hér á landi fyrir fjölmiðla og samtök, sem að öðru leyti hafa starfsemi sína annars staðar. Jafnframt hvort þurfi að huga að reglum um lögsögu yfir fjölmiðlaþjónustuveitendum, sem miðli myndefni frá jarðstöð eða gervitungli undir íslenskri lögsögu.
 10. Annað það sem talið er styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi hér á landi.