May 30, 2014 | Posted in:Fréttir

Razvan OrendoviciEvrópudómstóllinn úrskurðaði í maí 2014 með kröfu spænska ríkisborgarans Mario Costeja gegn Google um réttinn hans til að gleymast og þar með var lögfestur rétturinn til að gleymast í Evrópu. Mál Mario Costeja snýst um upplýsingar sem voru löglega birtar af spænsku dagblaði í kjölfar þess að hús Mario Costeja var sett á nauðungarsölu árið 1998 – en þær upplýsingar voru auðveldlega aðgengilegar á netinu, þar á meðal í gegnum leitarvél Google. Umbjóðendur Costeja héldu því fram að upplýsingarnar væru ekki lengur viðeigandi og skertu hans rétt til friðhelgi einkalífs því áðurnefndar upplýsingar komu upp ofarlega í leit á Internetinu þegar nafn skjólstæðings þeirra var slegið inn. Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Google bæri að takmarka leitarniðurstöður sínar í samræmi við réttinn til friðhelgi einkalífs og bæri að gera slíkt hið sama í málum af sama toga ef til þeirra væri leitað. Forsvarsmenn Google hafa lýst yfir vonbrigðum sínum með dóminn og lýst yfir áhyggjum um að dómurinn verði líklegur til að vera mun meira íþyngjandi á minni fyrirtæki sem bjóða upp á leitarvélar, þar sem þau muni ef til vill ekki hafa getuna til að takmarka sínar leitarniðurstöður sem slíkt umfang krefst.

Kaldhæðnin er auðvitað sú að Costeja, maðurinn sem vann málið um að fá að gleymast, mun í kjölfarið alls ekki gleymast.

Þessi dómur vekur upp áleitnar spurningar varðandi hlutverka fyrirtækja á borð við Google sem nú hefur verið þvingað til að ritstýra leitarniðurstöðum í samræmi við beiðnir sem fyrirtækinu berst og eru af sama toga og mál Costeja. Þá er það umhugsunarvert hvort að slíkt ritstýringarferli sé yfir höfuð æskilegt af hálfu fyrirtækja. Einnig kallar það fram áhyggjur að réttar og löglegar upplýsingar sem hægt er að nálgast, löglega, með öðrum leiðum en leit á netinu, skuli vera eytt úr leitarniðurstöðum.

Ljóst er að þessi dómur takmarkar aðgengi að upplýsingum og dragur úr gagnsæi og er það varhugaverð þróun sem IMMI harmar.

 

(Mynd: Razvan Orendovici – CC BY 2.0 – https://www.flickr.com/photos/razvanorendovici/)