June 20, 2014 | Posted in:Fréttir

Útbýtt var á Alþingi í fyrradag, svari forsætisráðherra við fyrirspurn þingmanns um upplýsingagjöf og reglugerð samkvæmt upplýsingalögum.

Fyrirspurnin var tvíþætt. Annars vegar var spurt hvenær ráðherra hygðist gefa Alþingi skýrslu um framkvæmd upplýsingalaga og hvað hafi áunnist varðandi aukið aðgengi almennings að upplýsingum sbr. 3. mgr. 13. gr. upplýsingalaga. Í svari ráðherra kemur fram að skýrslu sé að vænta á vorþingi 2015 og í henni verði yfirlit yfir starf úrskurðarnefndar um upplýsingamál, yfirlit yfir veittar undanþágur frá gildissviði upplýsingalaga og upplýsingar um starf ráðuneytisins við framfylgd 13. gr. laganna um birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda og vinnu við opin gögn og endurnot þeirra skv. VII kafla laganna.

Hins vegar var óskað eftir upplýsingum um hvenær vænta mætti reglugerðar frá ráðherra skv. 4. mgr. 13. gr. laganna, m.a. um hvernig birtingu upplýsinga til almennings um starfsemi stjórnvalda skuli hagað og hvernig unnið skuli að því að gera málaskrár, lista yfir málsgögn og gögnin sjálf aðgengileg á vef. Í svari ráðherra kemur fram að ekki liggi fyrir hvenær reglugerðar er að vænta en vinna við framfylgd 13. gr. laganna standi yfir í ráðuneytinu. Spurningar hafi vaknað um hvort lagaramminn um þessi efni sé nægilega vel tryggður t.a.m. með tilliti til persónuverndarsjónarmiða þegar um er að ræða persónugreinanleg gögn. Þá hafi verið athugað hvort og hvernig megi hanna forrit sem spegla myndi málaskrár ráðuneytanna á vefinn. Ljóst er að nokkur kostnaður yrði af þessu bæði við hönnun forrits en einnig vegna vinnu við að afmá persónuupplýsingar sem leynt eiga að fara. Í svari ráðherra kemur einnig fram að nokkuð hafi verið litið til framkvæmdar í Noregi og til greina komi að ráðast í tilraunaverkefni í þessum efnum ef fjármögnun fæst til þess

IMMI mun hér eftir sem hingað til fylgjast náið með framkvæmd upplýsingalaga og beita sér fyrir jákvæðri þróun í átt til aukins upplýsingaréttar almennings.