July 16, 2014 | Posted in:Fréttir

355201575_a9f2733f1e_b(1)James Risen, blaðamaður New York Times, gaf út bókina State of War: The Secret History of the CIA and the Bush Administration árið 2006. Kafli í bókinni fjallar um meinta misheppnaða aðgerð CIA til að afvegaleiða kjarnorkutilraunir Írana, svokölluð Operation Merlin. Samkvæmt New York Times, reyndu ráðamenn í Hvíta húsinu að stöðva útgáfu bókarinnar en brugðust of seint við. Ákveðinn aðili var grunaður um að leka upplýsingum til Risen, án sannana, en Risen var stefnt árið 2008 og hann krafinn um að gefa upp sinn heimildarmann. Risen hefur ávallt þvertekið fyrir að uppljóstra um sinn heimildarmann.

“Valið er að yfirgefa bransann – að gefa upp allt sem ég trúi á – eða að fara í fangelsi” sagði Risen í Boston í febrúar 2014, eftir 6 ár af lagalegri óvissu.

Ný andlit, önnur nöfn, sama pólitík

Stjórnarbreytingar í Bandaríkjunum hafa lítið gert til að breyta hlutum þegar kemur að heimildarvernd, vernd uppljóstrara og fjölmiðlafrelsi. Lowell Bergmann – á hverjum myndin The Insider er byggð – hélt lykilræðu frammi fyrir fjölmennustu samkomu rannsóknarblaðamanna og -ritstjórna (IRE) í San Francisco í júní 2014:

“Ég er hér til að segja ykkur að við höfum verið að lifa í blekkingu (…) Við héldum að eftir Bush-Ashcroft-Gonzales árin að Barack Obama og Eric Holder væru vinir okkar. Þeir eru það ekki. Þó að forsetinn hafi sagt að hann styðji uppljóstrara vegna þeirra ´hugrekkis og föðurlandsástar,´ er dómsmálaráðuneyti hans að sækja til saka fleiri þeirra fyrir meint samtöl við fjölmiðla eða ´leka´ heldur en allir hinir forsetarnir í sögu Bandaríkjanna til samans.”

Bergman spurði hver myndi standa upp fyrir James Risen. Allir stóðu upp.

Hæstiréttur Bandaríkjanna hafna áfrýjunarbeiðni Risen

Í júlí 2013 komst ákvörðunardómstóll í Richmond, Virginíu, að þeirri niðurstöðu að Risen gæti verið skikkaður til að bera vitni í máli Jeffrey Sterling, sem er grunaður um að hafa lekið upplýsingum til Risen. Risen leitaði til hæstaréttar Bandaríkjanna til að úrskurða í málinu – mál sem er eitt mikilvægasta mál er varðar frelsi fjölmiðla í Bandaríkjunum síðustu áratugi – en hæstiréttur þar í landi hafnaði þeirri beiðni í júní 2014.

Hvar mál Sterlings, og í framhaldi, mál Risen eru stödd er óvíst. En Risen er harðákveðinn í því að gefa ekki upp sinn heimildarmann og nýtur stuðnings allra alvöru blaða- og fréttamanna í Bandaríkjunum og víðar.

Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Eric Holder, sagði í maí 2014: “Svo lengi sem ég er dómsmálaráðherra, mun enginn blaðamaður sem sinnir starfi sínu fara í fangelsi. Svo lengi sem ég er dómsmálaráðherra mun enginn sem er að sinna starfi sínu verða sóttur til saka.”

Ríkisstjórn Obama erfði málið frá ríkisstjórn Bush, en hefur hingað til ekki staðið við sín kosningaloforð (og þá sérstaklega Obama) um vernd fyrir uppljóstrara, en Huffington Post greindi frá því í júlí 2013 að eitt af kosningaloforðum Obama – varðandi vernd uppljóstrara – hefði horfið af kosningavefsíðu Obama:

Oft á tíðum koma bestu upplýsingarnar um sóun, svik og misnotkun í stjórnsýslunni frá starfsmönnum innan stjórnsýslunnar sem einsetja sér að verja almannaheill og eru tilbúnir til þess að ljóstra upp um mál. Slíkt hugrekki og föðurlandsást, sem getur stundum bjargað lífum og oft passað upp á skattpeninga, ætti að vera hvatt frekar en hindrað. Við þurfum að styrkja starfsmenn stjórnsýslunnar sem eftirlitsaðila þegar kemur að misgjörðum og sem samstarfsaðila. Barack Obama mun styrkja lög um uppljóstranir til að vernda starfsmenn hins opinbera sem varpa ljósi á sóun, svik og misnotkun í stjórnsýslunni. Obama mun tryggja að stofnanir stjórnsýslunnar munu flýta fyrir því ferli að kanna ábendingar uppljóstrara og að uppljóstrar hafi greiðan aðgang að dómstólum og þeim sé tryggð réttlát málsmeðferð.

                                                                                                (Áður af síðu change.gov)

Hvað getur þú gert?

Þegar þessi grein er rituð hafa yfir 80.000 manns tekið þátt í undirskriftarsöfnun til stuðnings James Risen og fjölmiðlafrelsis. Þú getur skrifað þínum pólitíska umbjóðanda, skrifað greinar í blöð, bloggað um málið, vakið athygli á því á samfélagsmiðlum, skráð þig á póstlista hjá samtökum og stofnunum sem vinna að vernd fjölmiðlafrelsis og upplýsingafrelsis og/eða styrkt þau.

 

Við munum fylgjast með framvinndu málsins og greina frá.

 

 

(Mynd: GiantsFanatic – CC BY-NC-ND 20 – https://www.flickr.com/photos/giantsfanatic/)