August 2, 2014 | Posted in:Fréttir

Slide1Viðskiptablaðið greinir frá því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vilji koma sér upp notkun dróna, og er þar tekið fram að slíkt tíðkist erlendis til að mynda í rannsóknum slysa. Drón hafi fyrst verið notuð til njósna og svo til sprengjuárasa, eins og Bandaríkjamenn hafa gert víða en nú sé svo komið að tækninni hefur fleytt fram og almenn notkun blasir við, líka á Íslandi. Talað er um þetta sem sjálfsagt mál, því þetta tíðkist jú annars staðar og að engar sérstakar reglur séu um notkun dróna hér á landi.

 

IMMI lýsir eindregið yfir harðri andstöðu við notkun dróna á Íslandi hvort sem er í tilgangi rannsókna eða njósna og hvort heldur sem er af hálfu lögreglunnar, almennings eða annarra. Um geigvænlegt inngrip í friðhelgi allra borgara samfélagsins er að ræða sem augljóslega brýtur gegn meðalhófsreglu. Hættan á alvarlegri misnotkun er alltaf til staðar, en lög og reglur um hleranir og aðgengi að persónugögnum eru til að mynda sveigð og beigð. Drónar bjóða upp á hættu af allt annarri stærðargráðu.

Þó vissulega séu sóknarfæri í notkun dróna – til góðs – býður notkun dróna hættunni heim og væri hún stórt skref í áttina að raunverulegu eftirlitssamfélagi.

IMMI kallar eftir því að Íslandi verði yfirlýst drónlaust svæði (Drone-Free Zone).