August 27, 2014 | Posted in:Fréttir

Screen Shot 2014-04-04 at 23.46.40Í bréfi umboðsmanns Alþingis til innanríkisráðherra ítrekar umboðsmaður þá nauðsyn og telur þörf á að ,,huga að stöðu starfsmanna ríkisins, þ.m.t. forstöðumanna, sem telja ástæðu til þess að láta eftirlitsstofnunum eins og umboðsmanni Alþingis í té upplýsingar um samskipti sín við yfirstjórnendur eða athafnir þeirra.” Tilefnið er athugun umboðsmanns á samskiptum innanríkisráðherra og nánustu samstarfsmanna hennar við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu á meðan lögreglurannsókn á leka á trúnaðargögnum úr ráðuneytinu stóð yfir.

Þáverandi lögreglustjóri lýsir stöðu sem margir uppljóstrarar þekkja, sem í þessu tilfelli orsakast vegna þagnarskyldu hans annars vegar og hins vegar skyldu til að upplýsa um afskipti ráðherra af rannsókn málsins. Í bréfi sínu til ráðherra (dags. 25. ágúst 2014) vekur umboðsmaður athygli á þeirri stöðu sem lögreglustjóri var í og vitnar beint til orða lögreglustjórans:

,,[V]ið erum hinsvegar í þeirri stórfurðulegu stöðu að til rannsóknar er innanríkisráðuneytið og starfsfólk þess, og þar á meðal ráðherrann og aðstoðar-, nánustu samstarfsmenn hennar, aðstoðarmenn hennar, þar af tveir sem eru með réttarstöðu sakbornings í sjálfu málinu þannig að þetta var bara staða sem ég hef aldrei nokkurn tímann setið eða staðið frammi fyrir og hafði svo sem engar nákvæmar upplýsingar um eða leiðbeiningar um hvernig ég ætti að bregðast við með öðrum hætti en þeim sem ég gerði, að hafa samband við ríkissaksóknara og gera henni grein fyrir þessu og tryggja það bara að rannsóknin sjálf héldi áfram eins og ekkert hefði í skorist.” (bls. 14 í bréf umboðsmanns Alþingis til innanríkisráherra)

Alveg frá hruni hefur verið til umræðu, bæði innan stjórnkerfisins og á Alþingi, að tryggja betur réttarstöðu uppljóstrara. Sem dæmi má nefna sérstakan viðauka í skýrslu nefndar um endurskoðun laga um stjórnarráðið sem gefin var út í maí 2010 og ályktun Alþingis um að Ísland skapi sér lagalega sérstöðu á sviði upplýsinga- og tjáningarfrelsis, þar sem sérstaklega er kveðið á um nauðsyn aukinnar verndar fyrir uppljóstrara. Þá er í vinnslu frumvarp sem skýrir mörk þagnarskyldu og uppljóstrunar hjá opinberum starfsmönnum. Einnig er til frumvarp sem tvívegis hefur verið lagt fram á Alþingi um réttindi og vernd fyrir uppljóstrara.

Nú hefur umboðsmaður Alþingis vakið athygli á að huga þurfi að þessum málum, sérstaklega að því er varðar starfsmenn ríkisins og samskipti þeirra við eftirlitsstofnanir á borð við umboðsmann Alþingis. IMMI tekur heilshugar undir með umboðsmanni Alþingis að tryggja þurfi betur stöðu og vernd uppljóstrara.