September 10, 2014 | Posted in:Fréttir

Þingsályktunartillaga um jafnt aðgengi að Internetinu

Fram er komin á Alþingi þingsályktunartillaga þess efnis að ríkisstjórn Íslands tryggi landsmönnum öllum jafnt aðgengi að Internetinu. Felst í tillögunni að ríkisstjórnin hefji aðgerðaráætlun um ,,hvernig tryggja skuli jafnt aðgengi allra landsmanna að Internetinu óháð búsetu og fjárhag” og að frumvörp vegna nauðsynlegrar lagasetningar vegna þess verði lögð fram á haustþingi 2015. Ályktunin kallar eftir því að fyrirtæki sem aðgang veita að Internetinu verði skilgreind sem almennir burðaraðilar (e. Common Carriers) en ekki sem gagnaveitur (e. Data Service Providers), og sinni þannig grunnþjónustu sem tryggir réttinn til aðgengis.

Umræðan um jafn aðgengi að Internetinu (e. Net Neutrality) hefur farið vaxandi en áform stórfyrirtækja um að skapa sér nýja tekjulind með því að mismuna notendum (bæði einstaklingum og fyrirtækjum) út frá búsetu og fjárhag hefur vakið upp gríðarlegar áhyggjur um netsamfélagið allt.

Hægfara Internet dagurinn

Umræðan um jafnt aðgengi hefur stóraukist eftir að FCC gaf út tillögur fyrr í ár um uppsetningu Internet hraðbrauta af hálfu fyrirtækja sem veita aðgengi að netinu (ISPs), sem óhjákvæmilega leiðir til hægfara Internets fyrir þá sem ekki geta nýtt sér slíkar hraðbrautir. Vefsíður eins og Netflix, Upworthy og Reddit taka höndum saman og mótmæla í dag, 10. september – á Hægfara Internet deginum – til að vekja athygli á málinu og krefjast viðbragða til að fyrirbyggja aðgreiningu og misskiptingu á og í gegnum Internetið.

IMMI mun berjast fyrir jöfnu aðgengi að Internetinu bæði á Íslandi og á heimsvísu – opið Internet er ómögulegt án jafns aðgengis.

Takið þátt í að verja jafnt aðgengi að netinu hér og fylgist með þróun jafns aðgengis á Íslandi. Saman getum við verndað Internetið.