October 30, 2014 | Posted in:Uncategorized

Screen Shot 2014-03-16 at 07.09.11Birgitta Jónsdóttir, kvaddi sér hljóðs á þingfundi á dögunum, undir liðnum ,,fundarstjórn forseta” og kvartaði undan seinagangi stjórnarinnar við framfylgd IMMI ályktunarinnar. Ræða Birgittu var svohljóðandi:

Ég vil vekja athygli forseta á því að Mennta- og menningarráðherra hefur ekki verið samkvæmur sjálfum sér en ráðherra svaraði fyrirspurn minni frá því í maí sl. á þann veg að hann ætlaði að kynna almenningi skýrslu stýrihóps sem settur var á fót til að framfylgja þingsályktun um upplýsinga og tjáningarfrelsi löggjöf um breytingar á meiðyrðamálalöggjöf í júní síðastliðinn, en af því hefur ekki orðið enn.

Þá vil ég vekja athygli forseta á því að stýrihópurinn hefur ekki fundað síðan í maí sl. og að starfsmaður stýrihópsins hætti störfum í ráðuneytinu stuttu eftir þennan fund í maí og komst háttvirtur þingmaður að því með því að lesa fréttir um mannabreytingarnar á fréttavef. Engum mér að vitandi hefur verið falið að halda utan um vinnu stýrihópsins. Nauðsynlegt er að fá upplýsingar um örlög stýrihópsins en ljóst er að margir bíða eftir að nefndin ljúki þeim forgangsverkefnum sem ráðherra hafði á sínum tíma sett í gang.

En forgangsmálin voru m.a. afnám refsinga vegna ærumeiðinga og breytingu á stjórnsýlsulögum um þagnarskyldu opinberra starfsmanna en stýrihópurinn lauk, í fyrra, drögum að frumvarpi um þagnarskyldu opinberra starfsmanna, sem er ætlað að leysa úr óskýrleika og auðvelda opinberum starfsmönnum að upplýsa um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi hjá stjórnvöldum. Frumvarpið, sem var samið af Páli Hreinssyni fyrrum hæstarréttardómara, var á þingmálaskrá stjórnarinnar fyrir síðasta þing en er ekki á nýju þingmálaskránni og virðist því dautt og grafið í forsætisráðuneytinu.

Í svarinu kemur einnig fram að ráðherra hyggist einnig upplýsa nánar um framfylgd verkefnisins í byrjun næsta haustþings, (það er að segja, NÚNA). Ég óska eftir því að forseti beiti sér fyrir því tafarlaust að ráðherra upplýsi þingið um framfylgd verkefnisins enda stendur skýrt og skorinort í ályktuninni sem var samþykkt hér á Alþingi 2010, að ráðherra skuli upplýsa Alþingi um framfylgd ályktunarinnar á þriggja mánaða fresti, en það hefur sitjandi ráðherra aldrei gert.