November 4, 2014 | Posted in:Fréttir

9753846_67b1c06497_bIMMI varar við því að útgáfufélög og fjölmiðlar gangi gegn prinsippum blaðamennskunnar til þess að styrkja vörumerki sín. Eins og fram hefur komið í skýrslu Franca ehf. og visir.is greinir frá er stjórn DV ráðlagt að deila kostnaði vegna meiðyrðamála með blaðamönnum:

,,Það er eftirspurn eftir fjölmiðli eins og DV, sem tekur á viðkvæmum og oft umdeildum málum. En slíkur fjölmiðill dansar á línunni og þarf stöðugt að vanda sig. Og hann þarf að fara að lögum. Enginn útgáfa hefur fjárhagslega burði til að greiða háar fjárhæðir í skaðabætur og/eða til lögmanna. Útgáfufélag DV hefur greitt milljónatugi á undanförnum árum í þessu skyni og það hefur leikið fjárhag blaðsins illa. Slíkt getur ekki gengið áfram. Hér kæmi fyllilega til greina að blaðamenn taki á sig hluta af þeim kostnaði sem verður til vegna málssóknar á hendur útgáfunni, vegna þeirra skrifa. Slík þátttaka yrði aldrei meiri en táknræn, en þó þannig að hún gæti tekið mið af einum mánaðarlaunum, eins og þekkt er hjá öðrum fjölmiðlum.”

Vitaskuld er aðeins um ráðleggingar almannatengslafyrirtækis að ræða en IMMI varar þó við því að blaðamenn séu látnir taka þátt í kostnaði vegna slíkra mála. Slíkt hefði í för með sér mikil kælingaráhrif en ljóst er þeim sem vilja sjá að löggjöfina í meiðyrðamálum þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Reifuð hafa verið ýmis sjónarmið vegna þessa en vert er að benda á að IPI (Alþjóðlega fjölmiðlastofnunin) gaf út skýrlsu um stöðu laga í evrópu vegna meiðyrðamála fyrr í ár. Þá hefur IPI gefið út fréttatilkynningu vegna kröfu Þóreyjar Vilhjálmsdóttur, aðstoðarmanns innanríkisráðherra, um hámarks refsingu til handa blaðamönnum DV vegna fréttar fyrr í ár. Scott Griffen, ráðgjafi stofnunarinnar, segir: ,,Við erum, í sannleika sagt, gáttuð á þeim óhóflegu kröfum sem farið er fram á í þessu máli.” Ennfremur segir Griffen: ,,Það að opinber starfsmaður fari fram á fangelsun – eða í raun refsingu yfir höfuð – vegna þess sem virðist hafa verið heiðarleg mistök gerð í alvarlegri rannsókn sýnir ekki virðingu fyrir eftirlitshlutverki fjölmiðla.”

Eins og fram kemur í skýrslu IPI frá í sumar eru stjórnvöld á Íslandi hvött til að fara í löngu tímabærar umbætur á meiðyrðalöggjöfinni. Undanfarið hefur meiðyrðamálum fjölgað mjög á Íslandi og nú síðast vann Erla Hlynsdóttir sitt annað mál er Mannréttindadómstóll Evrópu réttaði í. Ljóst er að breytinga er þörf til að vernda fjölmiðla og blaðamenn, án hverra við búum ekki við eina af megin forsendum virks lýðræðis: upplýsingu.

Griffen segir ennfremur: ,,Þetta mál sýnir fullkomlega að svo lengi sem meiðyrðamál eru í refsirétti, mun hættan á misbeitingu þeirra – og mögulegra kælingaráhrifa á fjölmiðlasamfélagið – vera til staðar. Við hvetjum Ísland, sem áður hafði auglýst sig sem vörð tjáningar- og upplýsingafrelsis, til að framkvæma þær nauðsynlegu úrbætur á meiðyrðalöggjöfinni í samræmi við alþjóðlega mælikvarða. Auk þess að afnema refsingarákvæði, ættu slíkar úrbætur að fela í sér þak á skaðabætur og, sérstaklega, klausu er léttir ábyrgð af blaðamönnum svo lengi sem þeir hafi starfað í góðri trú og í samræmi við almennar siðareglur.”

IMMI tekur heilshugar undir sjónarmið IPI.

Einnig kemur fram í skýrslu Franca ehf. að æskilegt væri fyrir DV að ritskoða frekar sitt athugasemdakerfi:

“Hins vegar er athugasemdakerfi dv.is gegnum Facebook. Þar er fámennur hópur „virkra í athugasemdum“ sem mörgum ofbýður orðbragð. Fjölmargt sem þar birtist brýtur gegn meiðyrðalöggjöfinni. Lagt er til að virkari ritstýring verði tekin upp á svæðinu. Þeim verði meinaður aðgangur sem gæta ekki að orðbragði og eðlilegum mannasiðum.”

IMMI hvetur þá fjölmiðla sem vilja halda úti athugasemdakerfi að gefa ekki falsmynd af viðhorfum sem þar koma fram með ritskoðun.

 

(Mynd IsaacMao CC BY 2.0)