May 12, 2015 | Posted in:Fréttir

Á dögunum kærðu Samtökin 78 tíu einstaklinga fyrir hatursorðræðu. Sú orðræða er af samtökunum talin brjóta í bága við 233. gr. a. almennra hegningarlaga, en þar segir:

,,Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.”

IMMI hefur lengi haft áhyggjur af ofangreindi lagagrein, sem stofnunin telur of víða til túlkunnar og fráleitt sé að fangelsisdómar liggi við brotum gegn lögum þessum. Þessi lög hafa verið notuð gegn blaðamönnum og hefur IMMI statt og stöðugt hvatt til þess að afnema skuli fangelsisrefsingar vegna meiðyrða.

Ef litið er til 233. greinar, þar sem um hótanir um refsiverðan verknað ræðir, þá er tjáningarfrelsinu settar skýrar skorður. Ekki verður séð að sá skýrleiki sé til staðar í 233. gr. a. (hér að ofan). Tjáningarfrelsið er fyrir alla, líka þá sem aðhyllast slæmar skoðanir. Með umræðu er hægt að takast á við slæmar skoðanir, fordóma, hatur, en ekki með þöggun. Telur IMMI þau opinberu ummæli – sem lýsa fordómum þeirra sem þau hafa viðhaft í garð hinsegin fólks – dæma sig sjálf, og hvetja frekar til samþjöppunnar þjóðfélagsins um réttindi hinsegin fólks heldur en til aukinna fordóma.

IMMI hefur ekki séð umræddar kærur, en veit ekki til þess að kært sé vegna beinna hótanna né ærumeiðinga gagnvart einstaka persónum, heldur um sé að ræða hatursorðræðu viðhafða gagnvart hópi fólks. Lítur stofnunin svo á að kærurnar muni ekki draga úr fordómum, heldur eingöngu hefta umræðu. Tjáningarfrelsið þarf að verja, líka þegar það er óvinsælt. Það er allra.

 

Mynd Always Shooting (CC BY 2.0)