May 26, 2015 | Posted in:Fréttir

IMMI stýrihópurinn, undir forystu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, hefur að mestu legið í dvala síðasta eitt og hálfa árið. Ein ástæðan er mannabreytingar. En nú hefur Hörður Helgi Helgason, lögmaður og fyrrverandi forstjóri Persónuverndar verið settur formaður stýrihópsins og hefur hópurinn fundað tvisvar síðastliðinn mánuð til að vinna að framkvæmd IMMI þingsályktunarinnar. IMMI tekur þátt í starfi hópsins og við hjá IMMI bindum miklar vonir við þá vinnu sem framundan er.

Frekari upplýsinga um framvinndu vinnunnar er að vænta í nánustu framtíð.

Annar starfshópur er vinnur að bættri lagasetningu er skarast við markmið IMMI er starfshópur á vegum Iðnaðar- og nýsköpunnarráðuneytisins sem hefur það verkefni að vinna að framkvæmd þingsályktunartillögu frá því í haust: um vistkerfi fyrir hagnýtingu internetsins og réttindavernd notenda. IMMI er þátttakandi í þessu starfi og beinir sérstakri athygli að réttindavernd notenda og þeim lagabreytingum sem betur gætu tryggt slíka vernd. Við vonumst eftir góðum árangri og að lagabreytingatillögur frá hópnum komi fram fyrr en síðar.

Þörfin á því að koma í lög þeim lagabreytingum sem IMMI ályktunin kveður á um vex hratt á sama tíma og Ísland dettur enn niður á alþjóðlegum listum yfir fjölmiðlafrelsi. En með heildstæðri framkvæmd á IMMI ályktuninni ásamt frekari lagabreytingum sem tryggja friðhelgi og gagnaöryggi, mun Ísland aftur skipa sér í hóp þeirra þjóða sem veita bestu lagalegu vernd fyrir tjáningar- og upplýsingafrelsi, fjölmiðlafrelsi og friðhelgi.

Markmið IMMI er að koma á fót öruggu lagalegu skjóli fyrir tjáningar- og upplýsingafrelsi á Íslandi sem nýtist alþjóðlega, ásamt því að vinna fyrir og hafa áhrif á samskonar lagasetningu víðsvegar um heiminn.

Búist við frekari framvinndu.