April 13, 2016 | Posted in:Fréttir

Árið 2010 samþykkti Alþingi Íslendinga einróma þingsályktun er kveður á um að Ísland skapi sér lagalega afgerandi sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Þessi þingsályktun var sett fram í kjölfar kröfu almennings um gagnsæi og fjölmiðlafrelsis, sem þarfnast meðal annars bæði sterkrar heimildar- sem og afhjúpunarverndar. Eitt meginmarkmið þessarar þingsályktunar var að gera fréttaflutning sem á beint erindi við almenning mögulegan, en flestir muna vafalaust eftir því þegar fréttast0fa RÚV gat ekki flutt fréttir vegna lögbanns sýslumanns um lánabók Kaupþings í uppgjöri efnahagshrunsins.

IMMI er sjálfstæð stofnun sem ekki er rekin í hagnaðarskyni. Stofnunin var sett á laggirnar árið 2011 til að þrýsta á og hvetja til framfylgdar þessarar þingsályktunartillögu jafnframt því að verja tjáningar- og upplýsingafrelsi, á Íslandi sem og annars staðar.

IMMI (International Modern Media Institute) vinnur að því að hér megi verða til ,,öruggt skjól” (e. safe haven) fyrir tjáningar- og upplýsingafrelsi. Það þarf að verja borgaraleg réttindi bæði í raunheimum sem og hinum stafræna heimi, alls staðar, alltaf.

IMMIUpplýsingaleki eins og sá sem leiddi til Panamaskjalanna er afleiðing þess að uppljóstrari steig fram með upplýsingar og risastór hópur blaðamanna vann í sameiningu að birtingu gagna. Til að auðvelda og hvetja til slíkrar blaðamennsku og upplýsingaflæðis þarf að efla og vernda það umhverfi sem blaðamenn vinna í. Ef Ísland verður öruggt skjól fyrir tjáningar- og upplýsingafrelsi er mun auðveldara að standa að slíkri blaðamennsku, þar sem samskipti eru traustari og afhjúpendavernd er í gildi.

Þú getur stutt IMMI í því að koma á fót öruggu skjóli fyrir tjáningar- og upplýsingafrelsi með því að styrkja okkur á Indiegogo og deila okkar hópfjáröflun á samfélagsmiðlum.

IMMI á Twitter & Facebook

Ensk síða IMMI

(Forsíðumynd: ind.ie)