Screen Shot 2014-02-07 at 14.31.56

IMMI er alþjóðleg stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi sem var stofnuð 2011 til að leiða saman rannsóknir á sviði lagasmíði 21. aldarinnar hérlendis semog erlendis. Við lifum í heimi þar sem lög er tengjast upplýsinga og tjáningarfrelsi, sér í lagi þau er lúta að friðhelgi einkalífs, aðgengi fjölmiðla að upplýsingum og vernd heimildarmanna blaðamanna eru ekki lengur staðbundin. Stofnunin byggir grundvöll sinn fyrst og fremst á þingsályktun með sama nafni sem samþykkt var einróma á Alþingi 16. júní 2010 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu í að  vernda tjáningar- og upplýsingafrelsi.

IMMI hefur unnið með alþjóðastofnunum og hinu akademíska samfélagi til að stuðla að upplýstri umræðu og að rannsóknum á þeim sviðum er stofnunin sérhæfir sig í. Þá veitir stofnunin ráðgjöf í tengslum við lagasetninguá sínu sérsviði og áhrif þeirra innanlands sem utan.

Markmiðið með stofnuninni er að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi hérlendis sem og öfluga vernd fyrir heimildarmenn blaðamanna og afhjúpendur. Til að það geti orðið að veruleika þarf að undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf sem byggir á bestu mögulegu löggjöf annarra þjóða.

Unnið er markvisst að breytingum á ýmsum lögum og reglugerðum í anda þingsályktunarinnar í sérstökum stýrihópi sem starfar í Menntamálaráðuneytinu. Með þessum lagabreytingum verður skapað framsækið umhverfi fyrir starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufélaga, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja. Stefnumörkunin gefur þjóðinni aukið vægi á erlendum vettvangi og getur orðið lyftistöng í atvinnu- og efnahagsmálum. Þessar breytingar treysta stoðir lýðræðis, eru hvati til nauðsynlegra umbóta og auka gagnsæi og aðhald.