Hvað þýðir IMMI?
IMMI er enska skammstöfun fyrir;  Alþjóðleg stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi: International Modern Media Institute sem er byggt á skammstöfun fyrir þingsályktunartillöguna sem stofnunin sækir uppruna sinn til: Icelandic Modern Media Initiative.

Hvað er International Modern Media Institute?
IMMI er alþjóðleg stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Stofnunin, sérhæfir sig í að rannsaka 21. aldar lög víðsvegar um heim sem lúta að upplýsinga-, tjáningarfrelsi sem og friðhelgi einkalífs í stafræna skýinu sem þeytist án lögsögu og hefur skapað mörg álitamál í lagalegum skilningi, hér heima og heiman.

Höfuðmarkmið IMMI er að verja og styrkja upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Stofnunin var sett á laggirnar árið 2011 til að tryggja að þau markmið sem voru sett í samnefndri þingsályktun verði að veruleika, veita ráðgjöf og vinna að þróun löggjafar sem tíunduð eru í ályktuninni með fræða- og blaðamannasamfélaginu. IMMI stofnunin vinnur að því að safna þessari þekkingu á einn stað. Stofnunin hefur að langmestu leyti verið rekin af sjálfboðaliðum en þegið styrki til að vinna að tilteknum verkefnum í samstarfi við frjáls félagasamtök með áherslu á Evrópulöggjöf.

Hvað er Icelandic Modern Media Initiative?
Snemma árs 2010 kom saman hópur lögfræðinga, blaðamanna og baráttufólks um tjáningarfrelsi og stafrænt frelsi, þingmanna frá Íslandi og Evrópuþinginu með það að markmiði að móta sterkustu upplýsinga- og tjáningarfrelsislög í heiminum og láta þau verða að veruleika innan íslenskrar löggjafar að frumkvæði þáverandi þingmanns Hreyfingarinnar, Birgittu Jónsdóttur. Notast var við þekkingargrunn WikiLeaks, því þeirra reynsla að því að notfæra sér sterka löggjöf í mismunandi löndum sýndi í verki að hægt var að vernda bæði gögnin sjálf og þá sem afhjúpuðu þau, með afgerandi hætti.

Með því að kortleggja helstu ógnir upplýsingafrelsis og mæta þeim lið fyrir lið með bestu og árangursríkustu upplýsingalögum sem fyrirfinnast opnar IMMI hugmyndafræðin, um bestu mögulegu löggjafar viðmið, umræðuna um upplýsinga- og tjáningarfrelsi á uppgjörstímum hérlendi. Að sama skapi veitir þessi hugmyndafræði Íslandi tækifæri til að skapa sér mikilvæga stöðu í alþjóðasamhengi sem leiðandi afl í framþróun samfélagsins, þar sem gagnsæi og aðgengi að upplýsingum um djúpstæða spillingu innan stjórnsýslunnar er besta vopnið til að tryggja heilbrigðan grunn til að skapa samfélag, öðruvísi en það sem varð gróðrastía Hrunsins.  Þá skapar lagaleg sérstaða á þessu sviði efnahagsleg sóknartækifæri. Mikil eftirsókn er eftir lagalegum stöðuleika og skýrleika fyrir þá sem hýsa persónugögn af öllu tagi. IMMI er fyrsta þingsályktunin sem skrifuð er á etherpad. Höfundar tillögunnar nutu fjölþjóðlegrar sérþekkingar baráttufólks á þessu sviði og við gerð tillögunnar var leitast við að finna bestu mögulegu lagafordæmin sem virka.

Hvað er í þingsályktuninni?
Heimildarmannavernd
Vernd afhjúpenda/uppljóstrara
Samskiptavernd
Lögbann á útgáfu fyrirbyggt
Vernd milliliða
Réttarfarsvernd
Vernd gagnagrunna og -safna
Vernd gegn meiðyrðamálaflakki
Rafrænt aðsetur á Íslandi
Íslensku tjáningarfrelsisverðlaunin

Getur lagaumhverfi á Íslandi verndað blaðamenn, bloggara eða heimildarmenn frá öðrum löndum?
Við fyrstu sýn virðast lög tiltekins ríkis aðeins ná til ríkisborgara þess lands. En reynslan sýnir að í stöðugt tengdari heimi, bæði í efnahagslegu og menningarlegu tilliti, að lög eins lands geta haft áhrif á breytni einstaklings í öðru landi. Það er einmitt þannig sem meiðyrðaflakkarar nýta sér misgóð tjáningarfrelsislög víðsvegar um heim til að þagga niður gagnrýni og andspyrnu, jafnvel hinumegin á hnettinum.

Screen Shot 2014-04-21 at 21.40.10Íslensk löggjöf getur ekki varið afhjúpendur eins og til dæmis Edward Snowden. Íslensk löggjöf nær einungis til þeirra sem eru á Íslandi, eða hafa næga tengingu t.d. vera heimildarmaður íslensks blaðamanns. Til þess að geta sótt um hæli á Íslandi þarf viðkomandi að vera á landinu. IMMI stofnunin hefur verið í samskiptum við Blaðamenn án landamæra varðandi mögulega gerð og útfærslu alþjóðasamnings um vernd afhjúpenda. Slíkur samningur gæti þá mögulega verndað þá sem eru í sambærilegri stöðu og Edward Snowden sem er  flóttamaður án vegabréfs, en bandarísk yfirvöld reyndu að hindra leið hans með því að ógilda vegabréf hans. Í dag er eina leiðin fyrir ríki til að aðstoða þá sem eru í þannig stöðu, veiting ríkisborgararéttar. Mögulegt er að öðlast íslenskan ríkisborgararétt án þess að vera á landinu. Skákmeistarinn Bobby Fisher fékk til að mynda íslenskan ríkisborgararétt meðan hann sat í fangelsi í Japan.

Hverjir hafa hagsmuni að gæta af IMMI þingsályktuninni?
Heimildarmenn, blaðamenn, útgáfufyrirtæki, mannréttindasamtök, fjarskiptafyrirtæki og hýsingaraðilar munu einna helst njóta þeirra lagalegu sérstöðu sem IMMI felur í sér. En fyrst og fremst mun almenningur á Íslandi hafa ríka hagsmuni að því að löggjöfin verði til. Sterkar undirstöður fyrir öflun og miðlun frétta og upplýsinga er forsenda lýðræðis.

Er mögulegt að ráðast í verkefni sambærilegt IMMI í öðrum löndum?
Þar sem þessi þingsályktun dregur saman bestu lagavernd víðsvegar um heiminn þá er hægt, að mestu leyti, að fara í samskonar vegferð í flestum öðrum löndum. Það er vissulega auðveldara að ráðast í svona lagabreytingar í löndum sem hafa smærri dómskerfi, hátt stig menntunar, og skilvirkar ríkisstjórnir. En með einbeittu átaki getur samskonar tillaga sprottið fram hvar sem er. Þingmenn víðsvegar um heim, m.a. á Indlandi og Ítalíu hafa haft IMMI til hliðsjónar í störfum sínum. Þá hefur IMMI einnig verið grunnstef í stefnumótun hjá Pírötum víðsvegar um heim sem og á Evrópuþinginu.

Hvað með höft á barnaklámi?
Ályktunin leggur ekki til breytingar á núgildandi íslenskum lögum eða lögum EES svæðisins í þeim málaflokki.

Hvað með hömlur á höfundarrétti í viðskiptum?
Ályktunin leggur ekki til breytingar á núgildandi íslenskum lögum eða lögum EES svæðisins í þeim málaflokki.