Screen Shot 2014-04-04 at 09.36.47Í bók sinni “The Shock Doctrine” fjallar Naomi Klein um hvernig áföll í samfélögum hafa verið notuð til að þrýsta í gegn lögum sem skerða grundvallarréttindi  borgara og auka valdheimildir stjórnvalda. IMMI þingsályktunin er hugsuð sem mótvægi við slíka hefð og áfall hrunsins nýtt til að koma á jákvæðum grundvallarbreytingum í þágu borgara landsins til langframa.

Af hverju ætti Ísland að marka sér sérstöðu varðandi upplýsinga- og tjáningarfrelsi?

Í kjölfar hrunsins stóð þjóðin á krossgötum. Á slíkum tímum er nauðsynlegt að uppgjörið felist ekki aðeins í að horfast í augu við fortíðina heldur jafnframt að móta skýra framtíðarstefnu fyrir land og þjóð.  Þær breytingar á lögum sem Alþingi samþykkti einróma að ráðast skyldi í til að hér geti þrifist framsækið umhverfi fyrir skráningu og starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufélaga, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja, treysta stoðir lýðræðis, verða hvati til nauðsynlegra umbóta og auka gagnsæi og aðhald. Stefnumörkunin hefur nú þegar gefið þjóðinni aukið vægi á erlendum vettvangi og skapað mörg tækifæri í atvinnu- og efnahagsmálum, þrátt fyrir að fyrirheit þau sem felast í ályktuninni séu enn ekki komin til framkvæmda að fullu.  

Ákvörðun um staðsetningu netútgáfa byggist meðal annars á þáttum eins og fjarlægð og fjarskiptagetu, kostnaði við netþjóna – svo sem kælingu – og lagaumhverfi. Fyrstu tveir þættirnir eru Íslandi í hag. Öflugir sæstrengir milli sumra stærstu markaðanna fyrir upplýsingaþjónustu og hrein orka og svalt loftslag gera landið að raunhæfum valkosti fyrir þá sem halda úti og reka netþjónustu.

Hér er því kjörlendi til að hrinda í framkvæmd heildrænni stefnu til að tryggja lagaumhverfi til verndar tjáningarfrelsinu sem er nauðsynlegt fyrir rannsóknarblaðamenn og þá sem gefa út efni sem telst mikilvægt í pólitísku samhengi. Upplýsingasamfélagið má sín lítils ef stöðugt er vegið að leiðum til að koma á framfæri upplýsingum sem eiga erindi til almennings. Þrátt fyrir að löggjöf sumra ríkja sé til fyrirmyndar á tilteknum sviðum þessa málaflokks, hefur ekkert ríki enn sem komið er sameinað allt það besta til að skapa sér sérstöðu að því marki sem IMMI ályktunin mælir fyrir um. Ísland hefur því einstakt tækifæri til að taka afgerandi forystu með því að búa til traustvekjandi lagaramma, byggðan á bestu löggjöf annarra ríkja.

Með því að byggja á og safna saman öllu því besta í löggjöf á þessu sviði og öðrum verndarákvæðum yrði Ísland að aðlaðandi umhverfi fyrir öflug fjölmiðla- og mannréttindasamtök sem eiga undir högg að sækja í heimalöndum sínum. Bresk útgáfufyrirtæki neyðast t.d. í auknum mæli til þess að fjarlægja greinar og upplýsingar úr gagnagrunnum sínum til að reyna að losna undan síauknum lögsóknum stórfyrirtækja og komast hjá leynilegum tilraunum til þöggunar (e. secret gag orders). Ekki er langt síðan Íslendingar fengu smjörþefinn af slíkri tilraun til þöggunar þegar Kaupþing fékk það í gegn í ágúst 2009 að lögbann var sett á fréttaflutning af lánabókum bankans. Öflug lagavernd eins og IMMI ályktunin mælir fyrir um, myndi því styrkja upplýsingafrelsi og lýðræði hér á landi og laða til landsins öflug fjölmiðla og mannréttindasamtök. Þá myndi heimspressan án efa vekja athygli á slíkum lagaramma og gera sitt til að standa vörð um hann. 

Til að hér ríki fjölmiðlafrelsi þurfa fjölmiðlar að búa við traustar lagalegar stoðir til að geta sinnt hlutverki fjórða valdsins. Gölluð lagasetning víða um heim hefur valdið því að kostnaður sem hlýst af málarekstri fyrir dómstólum er farinn úr böndunum. Þátttakendur í upplýsingahagkerfinu leyta því logandi ljósi að ríki sem setur málaferlum gegn útgefendum skynsamleg mörk. Að öðrum kosti er geta þeirra skert til að miðla óhlutdrægum fréttum og upplýsingum. Vegna traustrar fjölmiðlalöggjafar í Svíþjóð hafa margar stórar og virtar fréttaveitur sem og mannréttindasamtök flutt rafrænt aðsetur sitt þangað, en þó má gera miklu betur og Ísland hefur tækifæri til að laða þessi fyrirtæki til sín með framsækinni lagasetningu.

Sú tillaga sem hér hefur verið reifuð mun marka Íslandi sérstöðu á alþjóðavettvangi og hefur nú þegar áunnið okkur velvilja og virðingu í alþjóðasamfélaginu. Mörg lönd hafa nú þegar litið til IMMI sem viðmið þegar verið er að endurskoða löggjöf á heildrænan máta fyrir 21 öldina og þann landamæralausa veruleika sem allar þjóðir búa við vegna tilkomu internetsins. 

Fjölmiðla- og upplýsingafrelsi eykur möguleika almennings til þátttöku og áhrifa á ákvarðanir og framkvæmd ríkisvaldsins. Þátttaka borgarana er grundvöllur lýðræðis. Það er erfitt að ímynda sér magnaðri upprisu lands úr rústum víðtækrar fjármálaspillingar og leyndarhyggju en að bjóða upp á viðskipta- og samfélagslíkan gagnsæis og raunverulegs aðhalds.

21. aldar lögfræðingar

Íslenskir lögfræðingar þurfa að tileinka sér lögfræði 21. aldarinnar og tryggja þarf að hún eigi sér sess í lagadeildum háskóla hérlendis. Það er ómissandi hlekkur í IMMI keðjunni að íslenskir lögfræðingar hafi góða færni á því sviði sem hér um ræðir og geti varið tjáningar- og upplýsingafrelsið. Til þess þarf þekkingu á þeim alþjóðasamningum sem málefnasviðið snertir og einnig þeim nýja raunveruleika sem upplýsingabyltingin hefur haft í för með sér. Þau lög sem sett verða á grundvelli IMMI ályktunarinnar eiga eftir að þurfa að standast prófraun dómstólanna. Þá er mikilvægt að lögmenn haldi tjáningar- og upplýsingafrelsinu á lofti og tryggi góð og hagfelld dómafordæmi sem byggja má á til framtíðar. Fjölmiðlar hafa átt undir högg að sækja, meiðyrðamál og tilraunir til lögbanns á fréttum hafa aukist mjög og sjálfsritskoðun færist í aukana. Þegar samtök eins og Human Rights Watch, Reporters without Borders og verkalýðsfélög í Þýskalandi, auk rannsóknarblaðamanna og fjölmiðla sem sérhæfa sig í að flytja óþægilegar fréttir af valdamesta fólki heims, líta til Íslands til að hýsa gögn, þá er mikilvægt að hér sé nægileg þekking til að verja þau viðkvæmu gögn sem eru og verða hýst hér. IMMI hefur nú þegar laðað til sín fjölda lögfræðinga víðsvegar um heim sem hafa áhuga að leggja stofnuninni lið til að byggja upp slíka sérþekkingu hérlendis. Það er litið á þetta verkefni sem eitt af þeim mikilvægustu til að skapa mótstöðu gagnvart sívaxandi tilraunum til að láta mikilvægar upplýsingar og fréttir hverfa.