Úrdráttur úr nýjustu stöðuskýrslu um stöðu og framgang IMMI ályktunarinnar

 

Upplýsingaréttur

Meðal grundvallar forsendna lýðræðis og tjáningarfrelsis er aðgangur að upplýsingum. Réttur manna til upplýsinga frá stjórnvöldum er grundvallarréttur fyrir lýðræðislega umræðu, starfsemi fjölmiðla og aðhald almennings á ríkjandi valdhafa. Meðal helstu umbóta sem mælt er fyrir um í IMMI þingsályktuninni er bættur upplýsingaréttur almennings. Mikilvægt er að hafa það ávallt í huga að tryggja að allir staðlar og leitarskilyrði í skjölum ríkisins séu eins aðgengileg almenningi og nútímakröfur kveða á um að hverju sinni. Stöðug endurskoðun þarf því að vera á lögum þessum og uppfærslur sem endurspegla samtíman.

Það sem gert hefur verið frá samþykkt ályktunarinnar:

 • Ný upplýsingalög tóku gildi í janúar 2013. Þau ná ekki að uppfylla alla þá gæðastaðla sem liggja fyrir í þingsályktuninni um aðgengi almennings að upplýsingum.

Í skoðun:

 • Ákvæði í stjórnarskrá sem tryggir víðtækan upplýsingarétt almennings.
 • Hvort endurskoða eigi þær takmarkanir frá upplýsingarétti sem nýju lögin mæla fyrir um, meðal annars þegar kemur að mikilvægum efnahagslegum hagsmunum ríkisins.
 • Hvernig efla skyldu stjórnvalda til að birta málaskrár.
 • Aðrar endurbætur á upplýsingalögunum til að tryggja betur upplýsingarétt almennings.

Vernd heimildarmanna

Mikilvægur liður í því að fjölmiðlar geti haft aðgang að upplýsingum sem eiga erindi til almennings er að heimildarmenn þeirra njóti nafnleyndar. Þegar IMMI ályktunin var samþykkt var þessi vernd tryggð í lögum um meðferð sakamála. Þar kemur fram að óheimilt sé að gefa upp nafn heimildarmanns án hans leyfis. Dómari getur þó úrskurðað að nafn heimildarmanns skuli gefið upp ef telja má að slíkur vitnisburður geti ráðið úrslitum í sakamáli, að því gefnu að hagsmunir af vitnisburðinum séu ríkari en hagsmunir af nafnleynd heimildarmannsins.

Það sem gert hefur verið frá samþykkt ályktunarinnar:

 • Vernd heimildarmanna áréttuð með ákvæði í nýjum fjölmiðlalögum. – Samkvæmt því er fjölmiðlamönnum óheimilt að gefa upp heimildarmenn sína nema með samþykki þeirra eða samkvæmt dómsúrskurði í þágu sakamáls.

Í skoðun:

 • Hvort efla þurfi vernd heimildarmanna enn frekar og þrengja að heimild dómara til að krefja vitni um nafn heimildarmanns í þágu sakamál.
 • Hvort rétt sé að veita heimildarmönnum stjórnarskrárvernd.

Vernd afhjúpenda (uppljóstrara)

Screen Shot 2014-04-04 at 23.42.24Afhjúpendur (e. whistle-blowers) geta og hafa gegnt veigamiklu hlutverki í að miðla upplýsingum um misgerðir, spillingu og margháttuð brot stjórnvalda til rannsóknar- eða eftirlitsaðila eða jafnvel til fjölmiðla, þannig að allur almenningur verði um þær upplýstur. Oft er um að ræða upplýsingar sem eiga brýnt erindi til almennings en minna hefur þó farið fyrir umfjöllun um afleiðingar umfjöllunarinnar fyrir þann sem miðlaði upplýsingunum til fjölmiðla, þ.e. fyrir uppljóstrarann. Algengt er að þar hafi verið um að ræða starfsmann þess fyrirtækis sem upplýsingarnar varða í hvert sinn. Jafn algengt er að slíkur starfsmaður missi í kjölfarið starf sitt, þó svo að ekki fari alltaf jafnmikið fyrir fréttaflutningi af afleiðingum af slík fyrir starfsmanninn.

Það sem gert hefur verið frá samþykkt ályktunarinnar:

 • Dr. Páli Hreinssyni hefur verið falið að semja frumvarp til að einfalda og samræma lagaákvæði um þagnarskyldu opinberra starfsmanna (áætlað að leggja það fram á vorþingi 2014).
 • Fyrir liggja drög að þingmannafrumvarpi um vernd afhjúpenda. Um þingmannafrumvarp er að ræða og alveg óvíst hver afdrif þess verða.

Í skoðun:

 • Hvort rétt sé að stýrihópurinn hefji vinnu við frumvarp með samskonar markmið og þingmannafrumvarpið sem vísað var til hér að framan.
 • Hver réttar- og ábyrgðarstaða afhjúpendasíðna er og hvort þær þurfi sérstakrar verndar við.
 • Hvort einhverjar lagabreytingar þurfi á almennri vinnuréttarlöggjöf,
 • Hvort breyta þurfi höfundalögum og láta koma þar inn undanþáguákvæði vegna uppljóstrunar.
 • Kanna þarf hvort lög um persónuvernd þarfnist endurskoðunar vegna verndar afhjúpenda.
 • Skoða þarf ákvæði laga um rannsóknarnefndir og hvort vernd uppljóstrara eru nægilega skýr í þeim. Kanna hvort taka megi mið af starfsháttum rannsóknarnefndar Alþingis sem kannaði orsakir bankahrunsins.
 • Kanna þarf mögulegar breytingar á almennum hegningarlögum varðandi uppljóstrun í þágu almannahagsmuna
 • Kanna þarf leiðir til að tryggja órjúfanlegan rétt til að veita kjörnum fulltrúum upplýsingar.

Samskiptavernd

Lagavernd fyrir bæði heimildarmenn og afhjúpendur dugar skammt ef upplýsingar um samskipti einstaklinga sín á milli eru allar vistaðar hjá þriðja aðila. Þar sem heimildarmenn fjölmiðla hafa mjög oft samskipti við fjölmiðlaveiturnar gegnum síma eða internet er ljóst að vernd heimildarmanna kann að vera sniðgengin vegna gagnageymdar. Evrópsku blaðamannasamtökin hafa lýst því yfir að gagnageymd ógni öryggi heimildarmanna með því að skapa aðstæður þar sem tölfræðilega myndi reynast auðvelt að átta sig á hver heimildarmaður væri í mörgum tilvikum. Þessi yfirgripsmikla gagnageymd ógni þá tjáningarfrelsi heimildarmanna sem og lögvörðum rétti fjölmiðla.

 Lög um fjarskipti, nr. 81/2003, gilda um fjarskiptafyrirtæki og samkvæmt þeim er krafist varðveislu fjarskiptagagna í sex mánuði í þágu rannsóknar sakamála eða almannaöryggis. Enn fremur er tekið fram að fjarskiptafyrirtæki sé aðeins heimilt að veita lögreglu eða ákæruvaldi aðgang að viðkomandi upplýsingum.

Fjarskiptalöggjöfin er m.a. byggð á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/58/EB frá 12. júlí 2002 um vinnslu persónuupplýsinga og vernd einkalífs í fjarskiptum, með síðari breytingum. Stjórnlagadómstólar fjölmargra Evrópuríkja hafa dæmt gagnageymdina ólögmæta og í andstöðu við stjórnarskrárvarin rétt til friðhelgi einkalífs. 

Screen Shot 2014-04-04 at 23.39.39

Annan þátt samskiptaverndar í íslenskum lögum er að finna í lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Þar er takmörkuð ábyrgð milligönguaðila á borð við netveitur og hýsingaraðila. Undantekningar á þessari takmörkun eru fáar og flestar vel skilgreindar í lögunum, en almenn undantekning vegna lögbanns í 14. gr. án nánari skilgreiningar veldur áhyggjum. Þetta atriði yrði helst bætt með því að skýra betur undir hvaða kringumstæðum lögin leiða til undantekinga á ábyrgð milligönguaðila í fjarskiptum.

Það sem gert hefur verið frá samþykkt ályktunarinnar:

 • Á vettvangi Alþingis hefur tvívegis verið hindrað að gagnageymdartilskipun ESB verði tekin upp í EES samninginn, sem hefði í för með sér að ómögulegt væri að afnema hana úr íslenskum lögum.

Í skoðun:

 • Að gagnageymd verði afnumin með brottfalli 2. mgr. 42. gr. laga um fjarskipti.
 • Að skýra betur undanþágureglur um ábyrgð milligönguaðila í fjarskiptum og í hvaða tilvikum lögbann ætti að vera réttlætanlegt.

Lögbann á útgáfu

Samkvæmt íslenskum lögum er mögulegt að krefjast (fyrirfram) banns við því að tiltekið efni verði birt eða gefið út (sbr. til dæmis lögbannið á fréttaflutning RÚV um lánabók Kaupþings sem lekið var á vef Wikileaks haustið 2009).  Lögbannsaðgerðir af þessum toga geta sett verulega íþyngjandi hömlur á tjáningar- og upplýsingafrelsi og íflestum lýðræðisríkjum eru sterk og jafnvel algild takmörk á þeim. Nauðsynlegt kann hins vegar að vera að tryggja ákveðin úrræði til að vernda friðhelgi einkalífs borgara með úrræðum sem þessum en kanna þarf hvernig tryggja megi að lög verði ekki misnotuð í tilraunum til þöggunar sem takmarka og tálma tjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi fólks (og fjölmiðla).

Í skoðun:

 • Hvort viðhalda eigi möguleikanum á koma í veg fyrir birtingu efnis og hvort skaða- og miskabætur (eftir birtingu) nægi fyrir vernd æru og friðhelgi.
 • Að leita leiða til að tryggja að lögbann sé ekki nýtt sem úrræði til þöggunar.
 • Hvort rétt sé vald til að leggja á lögbann liggi hjá sýslumanni.
 • Hvort breyta þurfi málsmeðferð hjá sýslumanni (eða þeim sem móttekur kröfu um lögbann).
 • Hvernig tryggja megi að sá aðili sem móttekur kröfu um lögbann, byggi ákvörðun sína á sjónarmiðum upplýsingafrelsis.
 • Allt ofangreint varðar þá mögulegar breytingar á lögum um kyrrsetningu og lögbann og/eða setja ákvæði um þessi efni í fjölmiðlalög.

Málsóknir vegna meiðyrða

Fjölmiðlar birta oft fréttir sem koma illa við fólk og geta haft áhrif á mannorð þess, vegna þess að þær lýsa háttsemi sem ekki er til fyrirmyndar. Er þá gjarnan brugðist við með því að höfða meiðyrðamál gegn tilteknum blaðamanni/fjölmiðli. Misnotkun meiðyrðamálalöggjafarinnar til að þöggunar getur og hefur tíðkast þegar fjölmiðlar birta upplýsingar sem varða almenning og eiga erindi til almennings, m.a. til að borgararnir geti tekið upplýstar ákvarðanir.

Screen Shot 2014-04-04 at 23.46.40Ákvæði hegningarlaganna, sem fjalla um ærumeiðingar, hafa staðið nánast óbreytt frá því að þau voru sett árið 1940. Á þeim tíma sem liðinn er frá setningu þeirra hafa miklar umbætur orðið á sviði mannréttinda. Það er til efs hvort efnisatriði meiðyrðamálakaflans fái staðist nýrri viðhorf til mannréttinda, sérstaklega tjáningarfrelsinu sem nýtur verndar í stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í auknum mæli gagnrýnt beitingu refsiákvæða fyrir meiðyrði þrátt fyrir að því hafi enn ekki verið lýst yfir að refsingar vegna ærumeiðingar séu ósamrýmanlegar ákvæðum sáttmálans. Þá hefur Evrópuráðið hvatt aðildarríki sín til að endurskoða refsiákvæði sín um ærumeiðingar.

Það sem gert hefur verið frá samþykkt ályktunarinnar:

 • Ábyrgð milliliða (blaðamanna) hefur verið skýrð í nýjum fjölmiðlalögum sem tóku gildi 21. apríl 2011. Í lögunum er kveðið á um að sá einstaklingur ber ábyrgð á efni sem hann ritar í eigin nafni eða merkir sér með augljósum hætti. Þegar ritefni er haft eftir nafngreindum einstaklingi ber sá sem það er haft eftir ábyrgð á eigin ummælum hafi hann samþykkt birtingu þeirra. Með þessum ákvæðum er brugðist við því sem Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi Íslenska ríkið fyrir í málum blaðamannana Erlu Hlynsdóttur og Björku Eiðsdóttur en þær höfðu verið dæmdar fyrir meiðyrði fyrir íslenskum dómstólum fyrir ummæli sem voru höfð orðrétt eftir viðmælendum þeirra.

Í skoðun:

 • Hvort rétt sé að afnema refsiákvæði um ærumeiðingar að hluta eða öllu leyti sem hefði það í för með sér að einstaklingar gætu ekki gert refsikröfu í einkamáli sem höfðað væri vegna ærumeiðinga.
 • Hvernig tryggja mætti vernd ærunnar í einkaréttarlegu umhverfi þar sem beita mætti réttarúrræðum á borð við miskabætur og ómerkingu ummæla.
 • Hvort skýra þurfi enn frekar ábyrgð / ábyrgðarleysi blaðamanna sem milliliða upplýsinga.

Vernd gegn meiðyrðamálaflakki

Fullnusta erlendra dóma hér á landi geta valdið vandkvæðum við vernd tjáningarfrelsis. Alþjóðlegur einkamálaréttur getur haft þau áhrif að dóm sem fellur erlendis má fullnusta hér á landi svo sem þegar dómstólar í öðrum löndum hafa haldið því fram að þeir hafi lögsögu yfir verkum, greinum eða ummælum sem hafa verið birt eða látin falla á Íslandi. Íslenskur aðili gæti t.d. birt grein í erlendu tímariti eða orð hans á Íslandi hafa réttaráhrif í öðru landi og hann er dæmdur af þarlendum dómstólum og íslenskum yfirvöldum er svo falið að innheimta sektir, málskostnað o.fl.  Meiðyrðamál gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni í Bretlandi fékk á sínum tíma mikla umfjöllun, meðal annars með tilliti til fullnustu dómsins, lögsögu dómstóla og hinnar ströngu meiðyrðalöggjafar í Bretlandi.

Í skoðun:

 • Hvernig takmarka megi fullnustu erlendra dóma sem takmarka tjáningarfrelsið hér á landi.
 • Hvort líta eigi til nýlegra laga frá Bandaríkjunum sem banna fullnustu dóma sem fara í bága við tjáningarfrelsisákvæði bandarískru stjórnarskrárinnar
 • Hvernig aðild að EES- og Lúganó samningnum takmarka okkur að þessu leyti.
 • Hvort rétt sé að bregðast við því þegar erlendir dómstólar hafi haldið fram lögsögu sinni í málum er varða verk, ummæli og greinar birtast eða eru látin falla á Íslandi.
 • Hvort aðild að Lúganó samningnum komi í veg fyrir innleiðingu slíkra reglna
 • Hvort hægt er að koma í veg fyrir fullnustu dóma sem varða tjáningarfrelsið þegar tengsl við erlenda lögsögu eru lítil og athuga í þessu sambandi skuldbindingar vegna EES og Lúganó samningsins.

Réttarfarsvernd

Jafnt aðgengi að dómstólum og réttlát málsmeðferð er mikilvægur þáttur lýðræðis. Þrátt fyrir að lagavernd fyrir tjáningarfrelsi geti verið sterk kann að vera vandkvæðum bundið að verjast fyrir dómstólum, ekki síst vegna kostnaðar sem hlýst fyrir útgefendur, fjölmiðla og almenning allan að leita til dómstóla eða verjast fyrir dómstólum. Þetta hefur kælingaráhrif á blaðamenn og sérstaklega rannsóknarblaðamennsku. Það ætti alltaf að borga sig fyrir lítinn útgefanda að verja sig gegn vel fjármögnuðum kæranda sem ætlar sér að leyna upplýsingum, og almennt ættu smærri aðilar að geta varið sig gegn hinum stærri.

Í skoðun:

 • Hvort rétt sé að veita opinbera réttaraðstoð í málum er varða tjáningarfrelsi (gjafsókn)
 • Hvort koma megi á fót einkareknum málfrelsissjóði
 • Skoða setningu ákvæðis um sérúrræði sem tryggja málsaðila sem ver málfrelsi sitt fyrir dómstólum sérstaka réttarvernd t.d. um að allur málskostnaður falli á mótherja hans ef hann vinnur málið.
 • Mögulegar eglur um að sakborningur geti farið fram á að litið verði svo á að mál hans snúist um tjáningarfrelsið. Ef fallist er á það taka ýmis verndarákvæði í þágu sakbornings gildi á meðan málaferlum stendur. Ef dæmt er sakborningi í hag er tryggt að allur málskostnaður fellur á þann sem kærði.
 • Hvort rétt sé að setja sérstakt ákvæði í réttarfarslög (um meðferð einkamála og eftir atvitkum lög um meðferð sakamála) til að tryggja réttarfarsvernd að þessu leyti.

Vernd gagnagrunna og safna

Sú túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu að efni á netinu teljist útgefið á netinu er verulega varhugaverð fyrir vernd tjáningarfrelsis enda veldur hún því að orð sem sögð hafa verið firnast ekki og þannig mætti til dæmis höfða meiðyrðamál og krefjast ógildingar ummæla sem birtust fyrst 1973 og eru nú aðgengileg í gagnasafni mbl.is. Þessi túlkun Mannréttindafdómdólsins hefur margsinnis verið misnotuð til að fá greinar fjarlægðar úr rafrænum gagnasöfnum dagblaða. 

Í skoðun:

 • Hvernig skilgreina beri útgáfudag þegar um er að ræða efni sem er aðgengilegt í rafrænu gagnasafni í langan tíma eftir að það varð fyrst aðgengilegt almenningi.
 • Hvort skilgreina eigi tiltekna tímafresti í þessu sambandi til höfðunar meiðyrðamála (t.d. innan 2 mánaða að franskri fyrirmynd).
 • Athuga ákvæði í lögum um skylduskil safna.

Rafrænt aðsetur

Vegna þeirrar verndar sem þingsályktunartillagan mælir fyrir um að tryggð verði hér á landi gæti orðið verulega fýsilegt fyrir alþjóðlega fjölmiðla og samtök flytja aðsetur sitt hingað til lands með rafræna útgáfu í huga enda er hún ekki háð staðsetningu að öðru leyti. Þar með gætu þessir aðilar fallið undir þá vernd sem með tillögunni er lagt til að eigi við um aðila sem hafa aðsetur hér á landi. Þá þarf að tryggja að alþjóðleg fyrirtæki og samtök geti í raun og veru fallið undir íslenska lögsögu.

Í skoðun:

 • Hvernig þessir aðilar geti flutt rafrænt aðsetur hingað til lands og hvaða reglur þurfi um það að gilda.
 • Kanna þarf þær reglur sem gilda hér um starfsemi fjölmiðla á netinu, með hliðsjón af alþjóða- eða fjölþjóðasamningum, svo sem EES-samningnum.
 • Huga þarf að ákvæðum laga á sviði félagaréttar (laga um hlutafélög, einkahlutafélög o.fl.)
 • Huga að ákvæðum fjölmiðlalaga varðandi lögsögu yfir fjölmiðlaveitum sem miðla myndefni og nota til þess íslenska jarðstöð eða gervitungl sem tilheyrir Íslandi.
 • Hvernig íslenska ríkið getur öðlast lögsögu yfir erlendum ábyrgðarmönnum fjölmiðla með rafrænt aðsetur hér á landi.
 • Hvernig framfylgja eigi ábyrgðarreglum alþjóðlegra fjölmiðla hér á landi.
 • Hvort rétt sé að breyta gildissviði fjölmiðlalaga þannig að þau nái til fjölmiðla sem hafa sérstaklega skráð sig. Skráningu myndu fylgja ákveðin réttindi og vernd en einnig sú ábyrgð og skyldur sem lögin fella á fjölmiðla (sbr. ákvæði í Svíþjóð).